Grillað sumarsalat
fyrir 3 til 4
Salatblanda
1 stk. blómkál
1 stk. avókadó
1/3 af lítilli vatnsmelónu
15 stk. döðlur
4 stk. vorlaukur
2-3 stk. portóbelló-sveppir
Graskersfræ
Pekanhnetur
Grænt pestó (heimagert eða keypt)
Ísbúi (ostur)
70 ml sojasósa
50 ml kimchee base (eða önnur sterk sósa)
30 ml hlynsíróp
1 dós sýrður rjómi 36%
2 stk. saltaðar sítrónur (sítrónur sem búið er að sýra í saltpækli í langan tíma)
Marinerið portóbelló-sveppina í 50 ml sojasósu, 50 ml kimchee base og 30 ml hlynsírópi áður en þeir eru grillaðir. Þegar komnar eru flottar grillrendur á sveppina eru þeir skornir í strimla. Skerið blómkálið í hæfilega bita, marinerið það í grænu pestói og saltið smá áður en grillað. Skerið rauðlaukinn í fjóra báta og hendið ysta laginu. Grillið hann síðan þar til orðinn mjúkur viðkomu og saltið eftir smekk. Takið laufin í sundur og dreifið fallega í salatið.
Setjið sýrðan rjóma í skál og smakkið til með safanum úr tveimur söltuðum sítrónum og salti. Ristið graskersfræ á þurri pönnu við vægan hita. Þegar kominn er litur á fræin, setjið þá 20 ml af sojasósu á pönnuna og hristið þar til fræin eru orðin nokkuð þurr.
Þegar salatið er sett saman er best að setja kál í botninn og dreifa yfir það grilluðu blómkálinu, rauðlauknum og sveppunum. Skerið næst ferska grænmetið og melónuna í fallega bita og dreifið ofan á grillað grænmetið. Sikksakkið næst sósunni yfir allt salatið og toppið með döðlum, graskersfræjum og pekanhnetum. Endið á að rífa Ísbúa yfir allt.
Gjörið svo vel! Sumar í skál! Iðunn mælir með að salatið sé borið fram í flatri skál eða á diski, þannig njóti það sín best.
Tekið úr Fréttablaðinu frá Iðunni Sigurðardóttir