Það eru nokkur ár síðan mamma fór að baka jólabrauð byggt á þýskum stollenuppskriftum. Það sló strax í gegn á heimilinu og er fyrir löngu orðið algjörlega ómissandi hluti af jólunum hjá mér. Mig langar þess vegna að gefa ykkur uppskriftina. Myndir og uppskrift eru frá mömmu (orðalag og allt, viðbætur frá mér eru skáletraðar). Uppskriftin gerir eitt stórt brauð eins og á neðstu myndinni eða tvö eins og í formunum.
Jólabrauð/stollen
2 dl mjólk
1 dl mjúkt smjör
1 dl sykur
7 dl hveiti
3 ½ tsk ger
1-3 tsk kanell (má sleppa, mér finnst ekki mega sleppa því en ég elska kanel ;))
Hnoðað og hefað í brauðvélinni. (brauðvél er alls ekki nauðsynleg, ef þið eigið ekki svoleiðis þá hnoðið þið bara í hrærivél eða höndunum og látið hefast eins og venjulegt gerdeig, mamma notar bara brauðvélina í allt svona, sem er mjög sniðugt ef þið eigið brauðvél)
Takið úr vélinni og hnoðið saman við eða fletja fyrst út og strá þessu yfir:
3 dl rúsinur (mömmu finnst þær vondar í kökum og notar kúrennur í staðinn, það er mjög gott)
2 dl súkkat
1 dl smátt skorin kirsuber (kokteilber)
1 msk raspaður appelsínu- eða sítrónubörkur
Brjótið deigið saman eftir smekk, gerið djúpa skoru í miðjuna og þrýstið marsipanlengju vel ofan í, líka er hægt að leggja marsipanið inn í og vefja deiginu utan um. Látið hefast í ca 30 mín (s.s hefast aftur). Mamma notar bara það marsipan sem er til hverju sinni, núna var það kransakökumarsipan, stundum notar hún odense ren rå. Þið notið það sem ykkur finnst best. Magnið fer eftir smekk, hún gerir fingurþykkar lengjur. Það má nota meira eða minna eða jafnvel sleppa því, ég mæli hins vegar alls ekki með því að sleppa, notið frekar meira ef þið borðið marsipan á annað borð!
Bakað við 180-200° í amk. 30 mínútur, best er stinga í brauðið til að athuga það, mér finnst yfirleitt þurfa lengri tíma en þetta ef brauðið á ekki að vera klesst. Meðan brauðið er enn volgt má smyrja það með smjöri og strá flórsykri yfir.
Ath. Eftir hrun urðu súkkat og kirsuber óheyrilega dýr svo þá varð að finna aðrar leiðir. Þurrkaðar aprikósur og döðlur eru góðar í staðinn, sumir nota líka súkkulaði (það er geðveikt gott þegar hún setur súkkulaði).
Efra brauðið er án kanils neðra er með kanil, þið sjáið að neðra er aðeins dekkra.
Fundið á http://kruderiogkjanabangsar.wordpress.com.