Thursday, February 19, 2015

Saltkjöt og baunir !

Líklega borða Íslendingar aldrei meira af lambakjöti á einum degi en einmitt á sprengidaginn,
því mjög margir fylgja þeirri gömlu hefð að bera fram baunasúpu og saltkjöt - og nóg af því, þar sem á sprengidag eiga allir að borða eins og þeir geta í sig látið.
Þjóðsagan segir að einhverju sinni hafi húsfreyja á bæ nokkrum sagt eftir matinn, þegar allir voru búnir að gera sér gott af sprengidagskjötinu:
,,Södd er ég og saddir eru allir mínir." Þá sagði tengdadóttir hennar: ,,
Springi sá sem fyllstur er!" og hélt að það yrði tengdamóðirin, en raunin varð sú að hún sprakk sjálf,
því að hún hafði borðað mest af öllum. Það er kannski óþarfi að borða þar til maður springur -
eða óska þess að aðrir springi - en saltkjöt og baunir er góður matur sem flestir geta borðað vel af.
Salktjöt og baunir

Flestir halda að það þurfi að leggja baunirnar í bleyti, jafnvel sólarhring áður en sjóða á súpuna,
en það er óþarfi. Það er hægt að setja þær beint í pottinn.

250 g gular baunir
2 l vatn
1 laukur, saxaður
2 tsk timjan, þurrkað
1,2 kg saltkjöt
500 g gulrófur, afhýddar og skornar í bita
500 g kartöflur, afhýddar og skornar í bita
250 g gulrætur, skafnar og skornar í bita
nýmalaður pipar, ef vill
Baunirnar settar í pott með vatni, timjan og lauk og hitað að suðu. Látið malla undir loki í um 45 mínútur.
Þá eru einn eða tveir kjötbitar settir út í en hinir soðnir sér í potti.
Látið sjóða áfram í um hálftíma. Þegar líður á suðutímann er rétt að líta á baunirnar öðru hverju, hræra og athuga hvort bæta þarf við vatni.
Grænmetið sett út í og soðið í 20-30 mínútur í viðbót, eða þar til allt er meyrt. Smakkað og e.t.v. kryddað með pipar og salti.
Einnig má sjóða allt kjötið sér en þá þarf að salta baunirnar, eða sjóða það allt í súpunni en þá gæti hún orðið of sölt.
Líka má sjóða kjötið allt sér en sjóða þess í stað vænan bita af beikoni eða söltuðu svínafleski í súpunni til bragðbætis.
Í kaþólskum sið var og er víða erlendis haldin mikil kjöthátíð kvöldið áður en langafasta hófst. Þetta var líka gert hér og sá siður hélst áfram þrátt fyrir siðbreytingu.
Heitið sprengikvöld, sem er eldra en sprengidagur, kemur þó ekki fyrir fyrr en á 18. öld.
Þá átti fólk að borða þar til það stóð á blístri og var að því komið að springa.
Lengi hefur verið hefð að borða saltkjöt og baunasúpu þennan dag og það gera líklega flestir enn þótt sumir hafi breytt eitthvað til og eldi e.t.v.
svolítið heilsusamlegri útgáfur af réttinum.
En þótt feitt saltkjöt sé ekkert sérstakt hollustufæði er ekkert nema gott um baunasúpuna að segja og
þá ætti að vera óhætt að fá sér dálítið af kjötinu með – það er þá alltaf hægt að skera fituna frá.
Létt baunasúpa
Fituminni útgáfa með minna kjöti en þó ekki síður bragðmikil og góð.
300 g gular baunir
2 l vatn
75 g magurt beikon
1 blaðlaukur (hvíti og ljósgræni hlutinn)
1 sellerístöngull
1 tsk. tímían
2 lárviðarlauf
nýmalaður pipar
750 g saltkjöt
500 g gulrófur
500 g gulrætur
hnefafylli af spínati (má sleppa)

Setjið baunirnar í pott og hellið köldu vatni yfir. Hitið að suðu og fleytið froðu ofan af.
Skerið beikon, blaðlauk og sellerí í fremur litla bita og setjið út í, ásamt tímíani, lárviðarlaufi og pipar.
Látið malla við fremur hægan hita í u.þ.b. klukkustund. Fitu- og beinhreinsið kjötið, skerið það í fremur litla bita og setjið út í. Látið malla áfram í 25 mínútur.
Afhýðið gulrófur og gulrætur, skerið í bita og setjið út í. Sjóðið áfram í um 25 mínútur, eða þar til kjötið og grænmetið er meyrt.
Bætið við svolitlu vatni ef súpan er mjög þykk en hækkið hitann, takið lokið af pottinum og látið súpuna sjóða dálítið niður ef hún er of þunn.

Skerið að lokum spínatið í ræmur (ef það er notað), hrærið saman við og berið súpuna fram.


Af http://www.islandsmjoll.is

Monday, February 2, 2015

Kjúklingaréttur með sweet chili og beikoni

IMG_8668Uppskrift:
  • 900 g kjúklingur (t.d. bringur, lundir eða úrbeinuð læri)
  • 150 g beikon
  • 1 rauðlaukur, saxaður smátt
  • 3 hvítlauksrif, smátt söxuð eða pressuð
  • 2-3 meðalstórar gulrætur, skornar í sneiðar
  • salt og pipar
  • 1 dós (180g) sýrður rjómi (36%)
  • 2 dl rjómi
  • 1½ dl rifinn parmesanostur (eða mozzarella ostur)
  • ½ msk kjúklingakraftur
  • 1 tsk sambal oelek (chilimauk) -má sleppa
  • 2-3 msk sweet chili sósa
  • 1½-2 msk sojasósa
  • hnefafylli söxuð flatblaða-steinselja
IMG_8664
Beikonið skorið í bita og steikt á pönnu þar til það verður stökkt. Þá er það veitt af pönnunni en fitan skilin eftir. Kjúklingurinn er skorin í bita, saltaður og pipraður og steiktur, ásamt rauðlauknum, upp úr beikonfitunni (meiri fitu bætt við ef með þarf) þar til hann hefur náð góðri steikingarhúð. Þá er gulrótunum og hvítlauki bætt út á pönnuna. Því næst er sýrðum rjóma, rjóma, parmesan osti, kjúklingakrafti, chilimauki, sweet chili sósu, sojasósu bætt á pönnuna ásamt beikoninu og allt látið malla í um það bil 10 mínútur (líka hægt að setja í eldfast mót inn í ofn) eða þar til kjúklingur er eldaður í gegn. Undir lokin er steinseljunni bætt út í kjúklingaréttinn. Borið fram með kúskús eða hrísgrjónum og góðu salati.
IMG_8672
Af eldhussogur.is