Lambapottur frá Kasmír
Þessi norður-indverska lambauppskrift er frá Kasmír héraði og heitir á frummálinu Kashmiri Gosht. Það er mikið af kryddum í henni og útkoman verður bragðmildur og mjúkur réttur.
1 kg beinlaust lambakjöt, t.d. innanlæri
1 laukur, saxaður
4-5 hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
3 sm engiferrót, rifin niður á rifjárni
5 kartöflur, flysjaðar og skornar í fernt
2 tómatar, flysjaðir, kjarnhreinsaðir og grófsaxaðir
1 dl cashew-hnetur
1 dós grísk jógúrt
1 dl matreiðslurjómi eða rjómi
1 dl frosnar grænar baunir
5 negulnaglar
1 kanilstöng, brotin í þrennt
5 kardimommur
1 tsk cumin-fræ
1 tsk kóríanderkrydd
1/2 tsk turmeric
1/2 tsk cayennepipar
1 tsk paprikukrydd
1 tsk salt
Skerið kjötið í um 2 sm teninga. Þar sem að kryddunum er bætt við í tveimur skömmtum er gott að hafa þau tilbúin og setja saman í bolla eða glas. Annars vegar kanil, kardamommur, cumin og negul og hins vegar kóríander, papriku, cayenne, salt og túrmerik.
Setjið cashewhneturnar í matvinnsluvél ásamt um 1/2 dl af vatni. Maukið saman.
Hitið olíu á pönnu og bætið við kanil, kardamommum, cumin og negul. Látið kryddin malla í olíunni í eina til tvær mínútur og bætið þá lauk, hvítlauk og engifer saman við. Steikið í þrjár til fjórar mínútur eða þar til laukurinn er orðinn mjúkur. Þá er kóríander, túrmerik, cayenne, papriku og salti bætt út. Hrærið saman og bætið við lambinu. Steikið þar til allir bitarnir hafa tekið á sig lit. Bætið þá tómötum og kartöflum út á og steikið áfram í fimm mínútur.
Blandið cashewhnetumaukinu og jógúrti saman og setjið út í pottinn Hrærið saman, setjið lok á pottinn og lækkið hitann. Leyfið að malla í allt að þrjú korter.
Bætið þá baununum og rjómanum saman við og leyfið að malla í nokkrar mínútur í viðbót eða þar til að sósan er orðin þykk og fín.
Berið fram með Naan-brauði, basmati-grjónum t.d. indverskum kryddgrjónum ograita-jógúrtsósu.
Tekið úr Morgunblaðinu.