Friday, October 1, 2010

Vindaloo kjúklingur


Vindaloo

Vindaloo er að finna á matseðli flestra indverskra veitingahúsa en rétturinn kemur upprunalega frá Goa á vesturströnd Indlands. Þar er töluvert um portúgölsk áhrif og er talið að nafnið megi rekja til Carne de vinha d'alhos en uppistaðan í þeim rétti er svínakjöt, hvítlaukur og vínedik. Bætið við fullt af indverskum kryddum og útkoman er Vindaloo. Þetta er nokkuð kryddaður réttur en hægt er að stjórna því með því að fækka eða fjölga chili-piparnum.

1 kg svínahnakki

1 laukur, saxaður

2 tsk kóríanderfræ

2 tsk cumin-fræ

5 kardamommur, einungis fræin innan úr belgjunum

5 negulnaglar

1 kanilstöng

10 hvítlauksgeirar

3 sm engiferrót, flysjuð og rifin

3-5 rauðir chilipiparbelgir (þeir eru mildari ef þið fræhreinsið þá)

3 msk vínedik

2 dl cashewhnetur

10 svört piparkorn

Malið kanilstöng, kóríanderfræ, cuminfræ, piparkorn og negulnagla í morteli eða kaffikvörn.

Skerið kjötið í teninga. Maukið engifer, hvítlauk, chilipipar og vínedikið saman í matvinnsluvél. Bætið kryddblöndunni saman við. Blandið maukinu saman við kjötbitana og leyfið að marinerast í 1-2 klukkustundir.

Hitið olíu á pönnu. Setjið laukinn á pönnuna og steikið þar til að hann er orðinn mjúkur eða í um þrjár mínútur. Bætið kjötinu út á pönnuna og stekið í 5-6 mínútur eða þar til allir bitarnir hafa tekið á sig gylltan lit.

Setjið lok á pönnuna og lækkið hitann. Leyfið kjötinu að malla á pönnunni á mjög vægum hita í um 40 mínútur. Bætið örlítilli skvettu af vatni við ef þarf.

Hitið olíu á annarri pönnu og steikið cashewhneturnar þar til að þær eru orðnar gylltar.

Berið kjötið fram með hrísgrjónum, cashwhnetunum, naan-brauði og raita-jógúrtsósu.

Tekið af mbl.is

No comments:

Post a Comment