Sætar kartöflur eru notaðar mikið í vestur Afríku og ásamt hnetum gerir þennan rétt bæði saðsaman og sætkryddaðan. Það er kannski svolítið skrítin innihaldlýsingin...ananassafi, hnetusmjör og hvítkál!!! Trúið mér samt að maturinn er rosa góður. Rétturinn hentar börnum einkar vel þar sem hann er mildur en mátulega kryddaður og fullur af hollu grænmeti. Þess skal þó gætt að börnin hafi ekki ofnæmi fyrir hnetum áður en þau byrja að borða matinn þar sem jarðhnetur eru einn almesti ofnæmisvaldur ungra barna. Þessi réttur er úr bókinni World Food Cafe og heitir eftir samnefndum veitingastað í London. Staðurinn er einn af mínum uppáhaldsstöðum í London og bókin er ein af mínum uppáhalds líka. Ég á eftir að setja inn margar uppskriftir úr þessarri bók á vefinn. Kannski geri ég einhvern tímann svona World Food Cafe Sigrun bók... hver veit! Gerið nóg af þessum mat því hann er rosa góður daginn eftir og helst ef hann fær að malla á vægum hita undir loki í einhvern tíma áður en hann er borinn fram.
Sætar kartöflur í hnetu- og engifersósu
Fyrir 4-6
Sætar kartöflur í hnetu- og engifersósu
Fyrir 4-6
- 2 tsk kókosfeiti
- 1 stór laukur, saxaður
- 4 hvítlauksgeirar, marðir
- 5 cm. engiferbútur, afhýddur og saxaður fínt
- 750 gr sætar kartöflur, saxaðar í smáa teninga
- 450 gr hvítkál, saxað í bita
- 1 tsk paprika
- 1 tsk cayennepipar (má sleppa til að hafa réttinn mildari)
- 400 gr saxaðir plómutómatar (ferskir eða í dós)
- 300 ml hreinn ananassafi
- 4 msk mjúkt hnetusmjör (maður á alltaf að kaupa lífrænt framleitt og án sykurs)
- Pipar
- Salt (t.d. Himalaya eða sjávarsalt)
Ofan á - 2 gulrætur, afhýddar og rifnar gróft á rifjárni
- 1 stór rauðrófa, afhýdd og rifin gróft á rifjárni
- 2 bananar, ágætlega þroskaðir sneiddir
- Safi af 1 límónu
- Hnefafylli ferskt coriander, rifið (má sleppa)
Aðferð: - Hitið 1 tsk af kókosfeitinni á stórri pönnu og bætið vatni við ef þarf.
- Steikið laukinn þangað til hann verður mjúkur.
- Bætið hvítlauknum og engiferinu saman við og steikið í nokkrar mínútur.
- Bætið hvítkálinu og sætu kartöflunum saman við og hitið vel.
- Þegar grænmetið fer að verða mjúkt bætið þá paprikunni og cayennepiparnum (ef notaður) saman við.
- Hrærið vel saman.
- Bætið tómötunum og ananassafanum saman við.
- Setjið lok á pönnuna og látið malla þangað til grænmetið er allt orðið mjúkt.
- Setjið hnetusmjörið saman við og hrærið allt vel saman.
- Saltið og piprið eftir smekk.
- Setjið í fallega skál og setjið bananasneiðarnar ofan á, svo gulræturnar og rauðkálið þar ofan á. Kreistið límónusafann yfir.
- Skreytið með coriander ef þið viljið.
- Berið fram með grjónum eða brauði.
No comments:
Post a Comment