Sörur frá Ástríði Guðmundsdóttur
40 – 50 stk.
200 g möndlur
3 1/4 dl flórsykur, sigtaður
3 eggjahvítur
Smjörkrem:
3/4 dl sykur
3/4 dl vatn
3 eggjarauður
150 g smjör, helst ósaltað, lint
1 msk kakóduft
1 tsk skyndikaffiduft
250 g hjúpsúkkulaði, dökkt ( Ópal hjúpsúkkulaði er best )
Ofninn hitaður í 180 C gráður. Möndlurnar fínmalaðar í matvinnsluvél eða blandara og flórsykrinum hrært saman við. Eggjahvíturnar stífþeyttar og síðan er möndlublöndunni hrært gætilega saman við með sleikju. Sett með teskeið á pappírsklæddar bökunarplötur og kökurnar bakaðar í 12-15 mínútur og látnar kólna.
Sykur og vatn sett í pott, hitað að suðu og hrært þar til sykurinn er uppleystur en síðan soðið áfram þar til lögurinn hefur þykknað ögn en er ekkert farinn að breyta lit, eða í 8 til 10 mínútur. Eggjarauðurnar þeyttar mjög vel og síðan er heitum sykurleginum þeytt saman við í mjórri bunu. Fara þarf varlega svo hann slettist ekki um allt og er best að hella honum ekki beint á þeytarana. Látið kólna nokkuð og síðan er linu smjörinu þeytt saman við og að lokum kakódufti og kaffi, ef það er notað. Kælt vel. Súkkulaðið brætt í vatnsbaði eða örbylgjuofni og síðan er köldu kreminu smurt nokkuð þykkt á botninn á marenskökunum og þeim síðan dýft í súkkulaðið ( á að vera um 40 C gráður), þannig að kremhliðin sé þakin súkkulaði. Kökurnar er best að geyma í kæli eða í frysti.
Þessar smákökur, sem eiginlega eru hálfgert konfekt, eru kenndar við hina frægu frönsku leikkonu, Sarah Bernhardt, og munu hafa orðið til í Danmörku snemma á 20. öld, raunar upphaflega sem terta en ekki smákökur. Þær eru alkunnar í Danmörku og hér á landi en ofsagt er að þær séu heimsþekktar, eins og stundum er fullyrt.
No comments:
Post a Comment