Thursday, October 21, 2010

Malooba - palestínskur kjúklingur


Malooba - palestínskur kjúklingur

Þessa uppskrift fékk ég frá palestínskum skólabróður á háskólaárum mínum í Þýskalandi fyrir langa löngu en við elduðum stundum saman. Þetta er útgáfa móður hans af klassískum arabískum rétti sem heitir Malooba. Það er best að gera hann í mjög stórum potti og þetta er full máltíð fyrir um sex.

Það þarf þó ekki að hafa áhyggjur af hugsanlegum afgöngum. Þetta er einn af þessum réttum sem verður bara betri daginn eftir.

Hráefni

  • 1 pakkning kjúklingaleggir
  • 1 pakkning kjúklingalæri
  • 1 lítill blómkálshaus
  • 500 g kartöflur
  • 2 laukar, saxaðir
  • 6 hvítlauksgeirar, saxaðir
  • 4 dl hrísgrjón (long grain)
  • 1 dós grísk jógúrt
  • 1 msk cummin
  • 1 tsk cayennepipar
  • 2 lárviðarlauf
  • 2 dl olía
  • Salt

Aðferð

  1. Skerið kartöflurnar og blómkálið í sneiðar
  2. Hitið olíu á pönnu og steikið kartöflursneiðarnar þar til að þær hafa tekið á sig góðan lit, 5-8 mínútur. Takið af pönnunni og geymið.
  3. Steikið blómkálsbitana á pönnu þar til þeir hafa tekið á sig góðan lit. Geymið.
  4. Hitið olíu í stórum, þykkbotna potti. Steikið kjúklingabitana í um 5 mínútur. Bætið við lauk og hvítlauk. Blandið vel saman og steikið áfram í 3-4 mínútur.
  5. Bætið hrísgrjónunum saman við og blandið vel.
  6. Setjið cummin, cayennepipar og lárviðarlauf saman við. (einnig er hægt að nota negulnagla og kardimommur þessu til viðbótar) Saltið.
  7. Bætið steiktu kartöflunum og blómkálinu saman við.
  8. Hellið vatni í pottinn þannig að það rétt þekji kjúklinginn, kartöflurnar og blómkálið.
  9. Látið malla á vægum hita þar til að hrísgrjónin eru soðin og vatnið að mestu gufað upp.
  10. Berið strax fram. Annað hvort í pottinum eða hellið yfir á stórt fat.

Berið fram með grískri jógúrt og fersku salati.

Tekið af mbl.is

No comments:

Post a Comment