Thursday, June 25, 2015

Karamellu – döðlu – bananaís


fyrir 4−6
3 vel þroskaðir bananar
100 g döðlur steinhreinsaðar
40 g smjör
2 egg
250 ml rjómi
e.t.v. pekanhnetur

Aðferð:
 Hitaðu ofninn í 180°C. Flysjaðu bananana og brjóttu eða skerðu þá í bita. Rífðu döðlurnar í bita.
Smyrðu lítið, eldfast mót með dálitlu af smjörinu, dreifðu banönum og döðlum í formið, dreifðu afganginum af smjörinu yfir í smáklípum og bakaðu í um 45 mínútur.
Láttu kólna í nokkrar mínútur, settu svo allt saman í matvinnsluvél og maukaðu vel.
Settu maukið í skál og kældu vel.
Þeyttu eggin í hrærivél. Settu bananamaukið út í, eina skeið í einu, og þeyttu mjög vel. Stífþeyttu rjómann í annarri skál og blandaðu honum saman við með sleikju. Settu blönduna í form og frystu hana í nokkra klukkutíma.
Taktu ísinn úr frysti nokkrum mínútum áður en hann er borinn fram til að mýkja hann aðeins, en hann er þó frekar mjúkur.
Hafðu e.t.v. pekanhnetur eða valhnetur með honum.
Frá Nönnu Rögnvaldardóttur

Sunday, June 21, 2015

Frönsk súkkulaði kaka

 

* 200 gr smjör.
* 200 gr suðusúkkulaði.
* 4 egg.
* 3 dl sykur.
* 1 dl hveiti.
* 100 gr herslihnetur hakkaðar.

Kremið

* Matreiðslurjómi.
* 2 stk. Mars súkkulaði.
* 1 plata af suðusúkkulaði.

Matreiðsla

1. Smjör og suðusúkkulaði sett í örbylgjuofn og síðan kælt.
2. Eggjunum og sykrinum er þeytt vel saman og síðan er blöndunni af smjörinu og suðusúkkulaðinu bætt út í. 
3. Loks er hveitinu og herslihnetunum bætt smátt og smátt út í.
4. Fatið er smurt smjöri og hveiti og er kakan síðan bökuð við 180°C í 30-35 mín.

Kremið

* Kremið er brætt og hrært saman líkt og íssósa.
* Þegar kakan er fullbökuð er kreimið sett á kökuna á meðan hún er enn heit. Gott er að leyfa kökuni að sjúga dálítið af kreminu í sig.

Gott að bera kökuna fram með ís og jarðaberjum.

frá Sigrúnu Sigmars

Wednesday, June 3, 2015

Kúrbíts-súkkulaðibrauð


  • 350 g kúrbítur, grófrifinn
  • 200 g steinlausar sveskjur, mjúkar
  • 125 g smjör, lint
  • 3 egg
  • 100 ml nýkreistur appelsínusafi
  • 1½ tsk vanilluessens
  • rifinn börkur af 1 sítrónu
  • 250 g heilhveiti
  • 40 g kakóduft
  • 2½ tsk lyftiduft
  • 1 tsk matarsódi
  • ½ tsk kanell
  • ½ tsk salt
Hitaðu ofninn í 165°C. Pressaðu eins mikinn safa úr kúrbítnum og þú getur, t.d. með því að setja hann á viskastykki og vinda það vel. Maukaðu sveskjurnar í matvinnsluvél og hrærðu smjöri og eggjum saman við og síðan appelsínusafa, vanilluessens og sítrónuberki. Hrærðu afganginum af þurrefnunum saman við. Blandaðu að lokum kúrbítnum saman við með sleikju. Settu deigið í jólakökuform og bakaðu brauðið neðst í ofni í um 50 mínútur, eða þar til prjónn sem stungið er í það kemur hreinn út. Láttu það kólna dálítið í forminu en settu það svo á grind. 
Af stundin.is