Tuesday, January 27, 2015

Ofnbakaður skötuselur í karrí-mangósósu með kúskús

Í gær var Fiskbúð Hólmgeirs með tilboð á skötusel, þeim ófagra en ljúffenga fisk! Þrátt fyrir að skötuselurinn sé almennt ekkert ódýr (frekar en annar fiskur hér á landi) þá er hann stundum kallaður humar fátæka mannsins enda afar þéttur og bragðgóður fiskur. Þessi uppskrift er einkar fljótleg en feykilega góð. Ég velti svolítið fyrir mér bökunartímanum en í flestum skötuselsuppskriftum er gefinn upp 10 mínútna bökunartími í ofni. Mér fannst það frekar stuttur tími, sérstaklega fyrir þykkustu bitana. Vissulega er mjög mikilvægt að ofelda ekki skötusel sem og aðra fiska, þá verður hann seigur. En sama gildir ef hann er ekki nægilega eldaður, ef hann er hrár þá er hann líka seigur og óspennandi. Bitarnir voru frekar þykkir og ég endaði á að hafa fiskinn í ofninum í 17 mínútur (eftir að hafa kíkt á fiskinn öðru hvoru) og það passaði fínt. Það er líka gott að sjá til þess að kaupa svipuð stór stykki af fisknum til þess að þau þurfi öll jafn langan eldurnartíma. Það er hægt að kaupa hvaða ,,currypaste“ sem er og hvaða mango chutney sem er, fer bara eftir smekk viðkomandi. Ég notaði milt karrýmauk en sterkt mango chutney í þessa uppskrift og okkur fannst það koma mjög vel út.
Uppskrift:
  • 800 gr. skötuselur
  • nokkrar gulrætur, skornar í litla bita
  • 1/2 kúrbítur, skorinn í litla bita
  • 3 msk. karrímauk (curry paste)
  • 3 msk. mangó-chutney
  • 2 msk. ferskt kóríander
  • 1 stór hvítlauksgeiri
  • grænmetiskraftur (ég muldi einn tening út í)
  • 1 peli rjómi (hægt að skipta út fyrir kókosmjólk)
  • olía
  • salt og  pipar
Aðferð:
Hitið ofninn í 200 gráður. Hreinsið skötuselinn (hann kemur oftast hreinsaður úr fiskbúðum)  og skerið í jafna bita.  Skerið grænmetið í bita. Hrærið saman karrýmauki og mango chutney og saxið kóriander út í maukið. Afhýðið hvítlauk, saxið smátt og bætið út í maukið ásamt grænmetiskrafti og rjóma. Hitið olíu á pönnu og steikið skötuselinn í um 1 mínútu á hvorri hlið á vel heitri pönnunni. Kryddið með salti og pipar.
Raðið skötuselnum í smurt eldfast mót, stráið kúrbít og gulrótunum yfir og hellið svo maukinu yfir allt saman. Bakið í 10-17 mínútur við 200 gráður (fer eftir þykkt skötuselsins).
Berið fram með kúskús eða hrísgrjónum og  góðu salati (og hvítvíni ef þannig liggur á manni!)
Tekið af http://eldhussogur.com

No comments:

Post a Comment