Saturday, January 24, 2015

Skúffukaka


P1120223
Öll matarblogg verða að hafa uppskrift af skúffuköku ekki satt? Þegar ég var lítil var ég oft í heimsókn hjá vinkonu minni og þar var alltaf til skúffukaka sem við fengum sneið af í kaffitímanum, oftar en ekki með smá þeyttum rjóma. Þessi skúffukaka var alltaf rosalega góð og eftir að ég flutti að heiman og fór að baka sjálf bað ég vinkonu mína um að fá uppskriftina hjá mömmu sinni. Það var auðsótt mál og síðan hefur kakan verið bökuð í ófá skipti, bæði hversdags og í veislur.
Kakan er mjög einföld, bragðgóð og alltaf mjúk og æðisleg. Ég held ég geti fullyrt að það muni allir elska þessa köku!
Skúffukakan frá Önnu
½ bolli brætt smjör(líki)
1/3 bolli heitt vatn
2 stk egg
1 bolli súrmjólk
3 bollar hveiti
2 bollar sykur
½ bolli kakó
1 tsk negull
1 tsk kanell
1 tsk engifer
1 tsk natron
1 tsk  lyftiduft
½ tsk salt
Öllu blandað saman og hrært, ekki hræra mjög lengi, bara þangað til allt er vel blandað saman og hellt í ofnskúffu. Bakað við 170° m/blæstri í 10-15 mín eða þar til endarnir byrja að losna frá forminu.
P1120219
Ég geri mismunandi krem í hvert skipti, það fer eftir því hvað er til, hvað mig langar og hversu sparileg kakan á að vera. Þetta krem er alltaf gott og er frekar sparilegt.
Gott súkkulaðikrem
150 g smjör
2 eggjarauður
100 g flórsykur
125 g suðusúkkulaði brætt
Þeytið smjörið þar til það verður létt og ljóst, bætið rauðunum út í einni og einni í einu, hrærið vel á milli. Setjið flórsykurinn út í og hrærið mjög vel. Bætið bræddu kældu súkkulaðinu út í og hrærið saman.
P1120298
Tekið af https://kruderiogkjanabangsar.wordpress.com

No comments:

Post a Comment