Saturday, September 26, 2009

Guacamole

2 lárperur (avokadó), vel þroskaðar og mjúkar
1/2 laukur (saxaður smátt)
1 - 2 litlir tómatar, skornir í smáa tenginga
safi úr 1/2 - 1 súraldini (lime)
salt
skvetta af tabasco og/eða broddur af chilli dufti
hnefi af kóríander laufum (cilantro), saxað

Skerið lárperurnar í bita og stappið svo í mauk. Þess vegna með gaffli, og best er að stappa ekki of mikið. Blandið lauknum, tómötum og kóríander saman við, og kryddið með súraldininu, salti og chilli pipar, eftir smekk. Einnig má gjarnan nota ferskan piparávöxt.

Þetta er mjög vinsæl ídýfa hjá okkur á sumareftirmiðdögum, með kornflögum, og jafnvel Margarita drykk þegar þannig ber við. Ég stóð lengi í þeirri trú að það væri svo mikið mál að gera þennan smárétt, nema vera með matvinnsluvél, en það er mesti misskilningur því ídýfan er best þegar það er svolítið gróf áferð á henni. En það er svolítið atriði að vera með góðar lárperur, og þær þurfa að vera þroskaðar, en ekki of þroskaðar því þá missa þær bragðgæði.

Þegar við fyrst byrjuðum að gera það að vana að skella í guacamole, þá var maðurinn minn vanur að tuða alltaf svolítið um að faðir hans, James Lee, hefði verið þekktur fyrir bestu guacamole ídýfuna í sýslunni (og þó víðar væri leitað). Uppskriftin hans var hins vegar hernarðarleyndarmál og fór því miður með honum í gröfina. Þannig var nú það!

En þessi er ekki slæm ...

No comments:

Post a Comment