Thursday, September 24, 2009

Blaðsalat með kjúklingi að hætti Stjána

Við höfum mjög óformlegan hátt á því hvernig við gerum þetta salat. Oft fer í það einfaldlega það sem til er í ísskápnum ...

Innihald:
. salat (ég nota oftast Iceberg til að hafa eitthvað stökkt á móti kjúklingnum, en Stjána finnst gott spínat eða annað, stundum blöndum við saman tegundum ... )
. kjúklingabringur (áætla eina á mann, nema um sé að ræða amríska hormónakjúklinga, þá þarf minna :-D ) grillaðar á pönnu og skornar í strimla, krydda með salt og pipar og/eða season-all
. eitthvað af eftirtöldu ferskmeti, brytjuðu niður í munnbitastærð: paprika, kirsuberjatómatar, gulrætur, sveppir, lárpera, spergilkál (man ekki fleira ...)
. eitthvað af ávöxtum, helst (súr/sæt) epli og/eða vínber (hef líka notað appelsínur)
. eitthvað salt og kryddað: fetaostur, sólþurrkaðir tómatar, ólívur, legin þistilhjörtu ...
. fá svo smá brodd með lauk (rauðlauk, skallott) í hringjum eða smátt saxað, einnig má hugsanlega bæta í súrsuðum pipar eins og jalapeno eða ferskum chili pipar ...
. furuhnetur (ristaðar á pönnu)
. með þessu nota ég yfirleitt blöndu af eplaediki og olíu, salt og pipar, en einnig má nota sítrónusafa

Alls ekki henda í salatið ÖLLU því sem ég hef tínt til. Þetta eru bara valmöguleikar, svo fer eftir efni og aðstæðum hverju sinni hvað fer út í. Mér finnst oftast betra að það séu ekki of margar sortir með, heldur að hinar sem eru njóti sín. Ég reyni líka að passa að salatið verði ekki of blautt, en það kemur safi oft af kjötinu, eða tómötunum og öðru. Edikssósan fer því út á rétt áður en salatið er borið fram, og best er líka ef kjúklingurinn og furuhneturnar eru funheit beint af pönnunni.

Kallinn byrjaði að gera þetta salat, í einfaldari mynd, en ég verð að viðurkenna að mitt framlag var mikið innblásið af "gourmet" salötunum sem ég fékk svo oft hjá Naný vinkonu í París í gamla daga, sællar minningar ...

No comments:

Post a Comment